Tilmæli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins byggja á þeirri afstöðu þeirra að hvorki séu lagaleg né efnahagsleg rök fyrir því að vaxtakjör sem áður tóku mið af erlendum millibankavöxtum haldist áfram eftir að tenging þess hluta höfuðstólsins sem bar slíka vexti við viðkomandi gjaldmiðil hefur verið rofin með dómi Hæstaréttar. Þetta kom fram í máli Arnórs Sighvatssonar, aðstoðaseðlabankastjóra á fundi með fréttamönnum í morgun.
Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa nú í morgun birt tilmæli til fjármálafyrirtækja er leiðbeina þeim um hvernig bregðast skuli við dómum Hæstaréttar vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða.
Ætlað að skapa festu
Með tilmælum sínum eru eftirlitsstofnanirnar að lýsa því yfir að það sé eindreginn skilningur þeirra á þeirri stöðu sem upp er komin eftir dóma Hæstaréttar, að í tilfellum þar sem lánasamningur hefur verið dæmdur ólögmætur skuli uppgjör og endurgreiðslur taka mið af 18. og 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema aðilar semji um annað, að því er fram kom í máli Arnórs í morgun.
„Tilmælunum er ætlað að skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Stöðugleiki fjármálakerfisins eru mikilvægir almannahagsmunir sem Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum ber lögum samkvæmt að standa vörð um. Með tilmælunum eru þessar eftirlitsstofnanir að sinna lagaskyldu sem á þeim hvílir.
Tilmælin byggja á þeirri afstöðu fyrrgreindra eftirlitsstofnana að hvorki séu lagaleg né efnahagsleg rök fyrir því að vaxtakjör sem áður tóku mið af erlendum millibankavöxtum haldist áfram eftir að tenging þess hluta höfuðstólsins sem bar slíka vexti við viðkomandi gjaldmiðil hefur verið rofin með dómi Hæstaréttar. Eftirlitsstofnanirnar telja að slík túlkun á niðurstöðu Hæstaréttar, væri hún framkvæmd til hins ýtrasta, fæli í sér svo stórt högg á eigið fé fjármálafyrirtækja að ríkissjóður þyrfti að leggja þeim til umtalsvert nýtt fé. Það er kostnaður sem aðrir samfélagsþegnar bera á endanum," sagði Arnór er hann kynnti tilmælin á blaðamannafundi.
Varðveitir stöðugleika
Aðferðin sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið mælast til að verði beitt mun varðveita stöðugleika fjármálakerfisins, jafnvel þótt þorri lánasamninga með gengistryggingarákvæðum yrðu dæmdir ólöglegir, en tekið gæti langan tíma að fá fyllilega úr því skorið, segir Arnór.
Eigið fé þeirra mun eigi að síður verða fyrir töluverðu höggi, fari svo að dómar Hæstaréttar nái að lokum til stórs hluta eignasafnsins, en á móti kemur að óvissu hefði þá verið eytt, sem gæti gefið tilefni til þess að endurmeta eiginfjárþörfina er fram líða stundir. Staða fjármálakerfisins ætti því að vera traust eftir sem áður.
Reiði og vonbrigði skiljanleg
„Staða margra sem tekið hafa gengistryggð lán er afar erfið. Reiði þeirra og vonbrigði eru skiljanleg. Hins vegar er rétt að benda á að þótt aðferðin sem lög mæla fyrir um að mati eftirlitsstofnana sé ekki eins hagstæð lántakendum sem tekið hafa gengistryggð lán og ef upphaflegir erlendir vextir samninganna stæðu óbreyttir, eins og sumir hafa gert kröfu um, þá mun staða þeirra eftir sem áður batna umtalsvert samanborið við óbreytt gengistryggingarákvæði.
Framkvæmd samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu gerir því hvort tveggja, tryggir lántakendum hagstæðari niðurstöðu en samkvæmt upphaflegum lánasamningum, og ver um leið almannahagsmuni og þar með t.d. hagsmuni allra skuldara og skattgreiðenda, sem myndu þurfa að bera kostnaðinn ef farið yrði eftir ýtrustu kröfum sumra kröfuhópa. Aðalatriðið er þó það, að þetta er sú nálgun sem lögin kveða á um að mati eftirlitsstofnananna og hún er nauðsynleg til þess að varðveita fjármálastöðugleika.
Áhætta er ávallt til staðar þegar fjármálakerfi þjóðar er annars vegar. Henni verður aldrei eytt að fullu. Óvissan um túlkun dóma Hæstaréttar felur í sér umtalsverða viðbótaráhættu. Hið jákvæða í stöðunni er hins vegar að eftirlitsstofnanir, ríkisstjórn og löggjafi geta takmarkað þessa áhættu verulega, bregðist þau við með réttum hætti.
Segja má með nokkurri einföldun að efnahagsáætlun stjórnvalda, með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, gangi út á að endurheimta traust; í fyrsta lagi á sjálfbærni ríkisfjármála, í öðru lagi á stöðugleika fjármálakerfisins og í þriðja lagi stöðugleika krónunnar. Þessir þrír þættir trausts eru svo samofnir, að bresti einn þeirra er ólíklegt að hinir haldi. Töluvert hefur miðað í rétta átt undanfarin misseri. Gengi krónunnar hefur styrkst, gripið hefur verið til umfangsmikilla aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum og endurreisn fjármálakerfisins er komin á góðan rekspöl. Þessum ávinningi má ekki fórna fyrir skammtímavinsældir. Því ber eftirlitsstofnunum, stjórnvöldum og löggjafarþinginu við þessar aðstæður að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að þeim ávinningi sem náðst hefur verði ekki glutrað niður," segir Arnór.
Myndi skaða lánstraust ríkissjóðs
Ástæða er til að skoða aðeins nánar hvað er í húfi, að sögn Arnórs. Mörg lönd heims standa nú á barmi ríkisskuldakreppu. Ísland hefur verið á meðal þeirra, en er á góðri leið með að vinna sig út úr vandanum.
„Það er sársaukafullt en nauðsynlegt. Umtalsverður viðbótarkostnaður ríkissjóðs vegna nýs áfalls á fjármálakerfið, sem leitt gæti af aðgerðaleysi, myndi tefla þeim ávinningi í mikla tvísýnu. Það myndi skaða lánstraust ríkissjóðs og tefja þar með aðgengi hans og íslenskra fyrirtækja að erlendum fjármálamörkuðum, eða a.m.k. hafa áhrif á þau kjör sem þar bjóðast.
Aðgangur að erlendum lánsfjármörkuðum er forsenda þess að útflutningsdrifinn efnahagsbati komist á skrið. Einnig er ljóst að verri staða bankanna myndi hafa slæm áhrif á þau lánskjör sem bjóðast á innlendum markaði.
Útlánavextir gætu hækkað og innlánsvextir lækkað. Það myndi einnig draga úr fjárfestingu og tefja efnahagsbatann. Um leið og grafið yrði undan trausti á ríkissjóði og fjármálakerfið, færi traust á gjaldmiðil landsins sömu leið. Það þýðir að ekki yrði hægt að leysa gjaldeyrishöft á þeim tíma sem stefnt er að, þ.e.a.s. að lokinni þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Fjármálakerfið yrði ekki heldur í stakk búið til þess að mæta hugsanlegum óstöðugleika í tengslum við afnám hafta. Að lokum er rétt að hafa í huga að svigrúm fjármálafyrirtækja til að koma til móts við aðra einstaklinga og fyrirtæki yrði verulega skert.
Af framangreindu má ráða að brýnir almannahagsmunir krefjast þess að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið setji fram almennar leikreglur sem varðveita stöðugleika á meðan greitt er úr réttaróvissu. Önnur stjórnvöld og löggjafarþingið þurfa einnig að meta hvort nauðsynlegt sé að grípa til frekari aðgerða til þess að taka af allan vafa. Það er í höndum okkar allra að tryggja stöðugleikann. Við væntum þess að allir leggist á sömu sveif til þess að ná því markmiði," segir Arnór.