Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði í fréttum RÚV að erfiðara yrði fyrir stjórnvöld að bregðast við fjárhagsáföllum með evruna. Sveigjanleiki krónunnar skilaði hagvexti um þessar mundir.
„Það hefur auðvitað legið fyrir að krónan er okkur gagnleg við að vinna okkur út úr núverandi erfiðleikum af ástæðum sem Flanagan nefnir,“ segir Helgi Hjörvar, Samfylkingunni, formaður efnahags- og skattanefndar.
„Gengi hennar aðlagast hratt breyttum aðstæðum og hefur áhrif til að draga úr innflutningi og efla og styrkja útflutningsatvinnuvegi, sem er það sem við þurfum á að halda við núverandi aðstæður,“ segir Helgi.
Haft var eftir Mark Flanagan, yfirmanni sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í fréttum RÚV í fyrrakvöld að mun erfiðara yrði fyrir ríkisstjórnina að bregðast við fjárhagsáföllum gengi Ísland í Evrópusambandið og tæki upp evruna. Ein ástæða þess að efnahagskreppan nú hefði orðið grynnri en búist var við væri sveigjanleiki gjaldmiðilsins.