Viðskiptaráðuneytið segir að það sé örðugt að bregðast við starfsemi smálánafyrirtækja. Fram kemur í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Neytendasamtakanna að regluverk Evrópusambandsins setji stjórnvöldum skorður.
SMS-lán falli ekki undir lög um fjármálastofnanir sem myndi leyfisskylda starfsemina og setja undir strangara eftirlit. Það sé frelsi til að stunda atvinnu og þessi fyrirtæki falli undir lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu og uppfylla skilyrði þeirra laga um upplýsingaskyldu til neytenda.
Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna, en þar má bæði sjá erindi samtakanna og svar ráðuneytisins.
„Í svari ráðuneytisins kemur fram að skráningarskylda fyrirtækja sem stunda smálánastarfsemi myndi ekki breyta miklu varðandi starfsemi þeirra. Skilmálarnir eru þegar í upphafi ljósir neytendum og þeir bera með sér hinn gríðarlega háa lánskostnað. Ráðuneytinu virðist því sem treysta verði á dómgreind neytenda og sé ætlun þeirra að verða sér úti um lánsfé séu ýmsar aðrar leiðir færar. Þá segir ráðuneytið á hér geti Neytendasamtökin vissulega gegnt lykilhlutverki.
Það er nú einmitt það sem Neytendasamtökin eru að gera með því að beita sér fyrir takmörkunum á markaðssetningu og vilja að lánveitingar séu almennt ábyrgari en gengur og gerist hér á landi. Þau telja ekki ásættanlegt að lánaþjónusta geti farið fram um miðja nótt án nokkurrar ráðgjafar og án þess að tryggt sé að lántakendur séu ódrukknir og með fullri rænu þegar lán er slegið. Þau telja einnig að neytenda- og fjármálafræðslu verði að efla í framhaldsskólum, en það hefur ekki verið nægjanlega vel að slíkri fræðslu staðið,“ segja Neytendasamtökin í tilkynningu.