Gríðarleg hækkun á raforku

mbl.is/Brynjar Gauti

Raforkukostnaður hjá meðalheimili hefur hækkað um allt að þriðjung frá því um mitt ár 2008. Miklar hækkanir á fastagjöldum fyrir flutning og dreifingu skýra stærstan hluta hækkananna en þau hafa þau hækkað um allt að 137% á síðustu tveimur árum. ASÍ greinir frá þessu.

Fram kemur að rafmagnsreikningurinn hafi hækkað mest hjá notendum Orkubús Vestfjarða sem búsettir séu í dreifbýli, en heildar raforkukostnaður þeirra hafi hækkað um 34% frá því um mitt ár 2008.

Hjá notendum á svæði Rarik, Rafveitu Reyðarfjarðar og í þéttbýli á Vestjörðum hafi raforkukostnaður einnig hækkað umtalsvert eða um 26-30%.

Reikningur meðalheimilis á svæði HS orku og Norðurorku hafi á tímabilinu hækkað um fimmtung en minnst hækkun sé hjá heimilum á svæði Orkuveitu Reykjavíkur eða um 6%.

Heildarkostnaður fyrir dreifingu, flutning og raforku til almennra heimilisnota hjá meðalheimili í þéttbýli, sem notar 4000 kWst. af rafmagni á ári, er hæstur hjá viðskiptavinum Rarik tæplega kr. 62.800 á ári. Lægstur er kostnaðurinn hjá Orkuveitu Reykavíkur kr. 48.250 á ári. Munurinn er kr. 14.550 á ári eða um 30%.

Raforkukostnaður heimila í dreifbýli er mun hærri en í þéttbýli. Meðalheimilið í dreifbýli á svæði Orkubús Vestfjarða greiðir kr.78.600 á ári fyrir raforku til almennra heimilisnota en á dreifbýlissvæði Rarik er kostnaðurinn tæplega kr. 74.600 á ári og hefur þá verið tekið tillit til sérstaks drefibýlisframlags sem ríkið leggur fram til að niðurgreiða dreifingu á raforku í dreifbýli.

Nánar á vef ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka