Tilmæli í þágu almannahagsmuna

Arnór Sighvatsson, aðstoðar Seðlabankastjóri og Gunnar Andersen, forstjóri FME
Arnór Sighvatsson, aðstoðar Seðlabankastjóri og Gunnar Andersen, forstjóri FME mbl.is/Eggert

Arnór Sighvatsson, aðstoðar seðlabankastjóri, segir stofnanirnar ekki vera að taka afstöðu með einum aðila fremur en öðrum, heldur sé verið að huga að almannahagsmunum. Reiði og vonbrigði lántakenda séu skiljanleg, og þessi tilmæli séu vissulega ekki jafn hagfelld og væri miðað við að erlendir vextir héldust. Staða þeirra batni eftir sem áður umtalsvert.

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir það skyldu FME að stuðla að virku og öruggu kerfi og þessi tilmæli séu liður í því. Þegar árekstrar sem þessir komi upp sé mikilvægt að vinna í þágu almannahagsmuna.

Sameiginleg yfirlýsing Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins er ekki lagalega bindandi. Með tilmælunum segjast stofnanirnar vera að setja ákveðið viðmið í því skyni að eyða þeirri óvissu sem uppi hefur verið.

Fjármálafyrirtæki geti notast við þetta viðmið, en þeim sé samt sem áður frjálst að semja við sína viðskiptavini sé þess kostur. Fylgi fjármálafyrirtæki þessum tilmælum "varðveitir það stöðugleika fjármálakerfisins."

Tilmæli FME og SÍ fela það í sér að fjármálafyrirtæki taki mið af vöxtum Seðlabankans, með hliðsjón af lægstu vöxtum. Það er síðan fjármálafyrirtækjanna sjálfra að láta á þetta reyna fyrir dómi. Það sé þeirra réttur og ekki sé ætlunin að taka þann rétt af þeim.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert