Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að nauðsynlegt hafi verið að eyða óvissunni varðandi gengistryggingu bílalána og með tilmælum Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins til fjármálafyrirtækja sé óvissunni eytt um tíma. Nauðsynlegt sé hins vegar að dómstólar skeri endanlega úr um málið og eyði óvissunni en fjölda spurninga sé enn ósvarað.
Að sögn Vilhjálms skiptir mestu að eyða óvissunni sem fyrst og það gerist fyrst og fremst gegnum dómstólana. Það verði því að hraða öllum dómsmálum sem framast er unnt. Varðandi þá línu sem Seðlabankinn og FME gaf í morgun þá þurfti að koma lína frá þeim þannig að það þarf að reyna að vinna eftir henni á meðan málið er óklárað fyrir dómstólum. „Það var algjörlega nauðsynlegt að svona lína kæmi út," segir Vilhjálmur.
Hann segir að enn sé fjöldamörgum spurningum enn ósvarað, spurningum sem ekki verið svarað nema fyrir dómstólum.
Aðspurður segir Vilhjálmur að eðlilegt sé að þessu mál fái forgang hjá dómsstólum og þann forgang að réttarhlé sé stytt eftir þörfum. Velja þurfi eftir bestu getu réttu málin til að leita svara við fyrir dómsstólum þannig að óvissan eyðist sem fyrst.
Hann segist ekki gera athugasemd að svo stöddu við þá vexti sem fjármálafyrirtækjunum er bent á að nota. Það sem skipti öllu sé að eyða óvissunni. „Þetta er ákveðið millibilsástand og nauðsynlegt að línan kæmi út. Í framhaldi af því þarf að auðvelda mönnum sem allra mest til að fá úr sínum deilumálum skorið," segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.