Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að ríkisstjórnin hafi þær upplýsingar innan úr dómskerfinu að niðurstaða í mál gengistryggðu lánanna gæti komið snemma í haust.
Ástæðan fyrir því að Seðlabanki og Fjármálaeftirlitið sendu út tilmælin í dag er sex mánaða uppgjör bankanna en öðrum ársfjórðungi lýkur í dag. Að öðrum kosti hefði uppgjör þeirra verið í lausu lofti.
Mikilvægt að tryggja stöðugleika á fjármálamarkaði
Ríkisstjórn Íslands hefur gefið út yfirlýsingu vegna ákvörðunar Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins um að senda fjármögnunarfyrirtækjunum tilmæli um við hvaða vexti eigi að miða þar til niðurstaða dómstóla liggur fyrir.
Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafa sent frá sér tilmæli til fjármálafyrirtækja um hvernig þeim beri að fara með gengisbundin lán. Þótt tímabundin óvissa ríki um endanlega niðurstöðu dómstóla er mikilvægt að stöðugleiki á fjármálamarkaði verði áfram tryggður. Ríkisstjórnin virðir sjálfstæði Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og ber fullt traust til þessara stofnana við að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
Dómstólar eiga að sjálfsögðu síðasta orðið varðandi réttarágreining sem enn er uppi vegna gengisbundinna lána. Verður réttur aðila til að bera mál undir dómstóla auðvitað ekki frá þeim tekin og er mikilvægt að niðurstaða fáist sem fyrst, segir í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands sem kynnt var fjölmiðlum að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu.