Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra heldur í dag til Þórshafnar, þar sem hann mun eiga fund með Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja á morgun, 1. júlí. Um er að ræða fund Hoyvíkurráðsins, sem sett var á stofn með Hoyvíkursamningnum, fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Fram kemur að helsta málið á dagskrá fundarins sé rekstur Hoyvíkursamningsins. Einnig verði fjallað um samskipti landanna við ESB og EFTA, auk þess sem rætt verði um samstarf á sviði heilbrigðismála og ýmis önnur mál er varði hagsmuni landanna.
Þá munu utanríkisráðherrarnir undirrita samkomulag um samstarf á milli utanríkisráðuneytis Íslands og Færeyja á sviði rekstrarmála. Samkomulaginu sé ætlað að vera grundvöllur að stuðningi og ráðgjöf Íslendinga við uppbyggingu utanríkisþjónustu Færeyinga.
Hoyvíkursamningurinn hafi verið í gildi í á fjórða ár og sé víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hafi gert, segir ennfremur.
Samningurinn varði ekki aðeins hefðbundin viðskipti, heldur sé með honum stefnt að auknu samstarfi á m.a. sviðum menningarmála, orkumála, umhverfismála, heilbrigðismála, fjarskipta og ferðaþjónustu.