Segir hvatt til lögbrota

Frá útifundi á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna á Austurvelli.
Frá útifundi á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna á Austurvelli. hag / Haraldur Guðjónsson

„Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið eru að hvetja fjármálafyrirtæki til lögbrota. Með þessu eru þau að hvetja fyrirtækin til þess að brjóta gegn 36. grein laga nr. 7/1936 og neytendaverndartilskipun Evrópusambandsins 93/13/EBE. Kjarninn í þessari lagagrein og tilskipun er sá að sé uppi ágreiningur um túlkun samnings þá skuli túlkun neytandans gilda,“ segir Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna. Hann ítrekar þó að ekki liggi fyrir formleg afstaða samtakanna þar sem ekki hafi gefist ráðrúm til þess að fara yfir málið.

Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið boðuðu til blaðamannafundar í morgun þar sem greint var frá því að þeim tilmælum hefði verið beint til fjármálafyrirtækja að þau miðuðu við vexti sem Seðlabankinn ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum sem nú gilda á lánamarkaði í stað gengistryggingar og erlends vaxtaviðmiðs á þeim lánum sem falla undir dóma Hæstaréttar á dögunum um gengistryggð bílalán.

„Ég held að það fari ekkert á milli mála að langflestir neytendur túlka það þannig að nú skuli samningsvextir gilda og þá er það skoðun okkar hjá samtökunum, eins og komið hefur fram áður, að greiðslan nú á næsta gjalddaga eigi að takmarkast við upphaflega greiðsluáætlun og þá samningsvexti sem eru í gildi,“ segir Marinó.

Skaðabótaskylda?

Marinó segir að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið verði að hafa það hugfast að stofnanirnar geti hugsanlega verið að skapa sér skaðabótaskyldu með tilmælum sínum til fjármálafyrirtækja. „Þetta er stórmerkilegt að því leytinu til að enn einu sinni ætla stjórnvöld, þó þarna sé það Seðlabankinn sem á að heita sjálfstæður, að taka afstöðu með fjármálafyrirtækjunum í landinu gegn almenningi,“ segir Marinó.

„Ég velti því fyrir mér hvað það myndi kosta fjármálafyrirtækin að halda aftur af sér með þetta og miða bara við samningsvexti í staðinn fyrir að fara upp í þessa 8,25% vexti sem Seðlabankinn er að leggja þarna til. Það mun alveg örugglega ekki setja fjárhag þessara fyrirtækja á hliðina að hlíta útskurði Hæstaréttar eins og neytendur hafa túlkað hann. Þau hafa þá svigrúm til þess að fara í þau dómsmál sem þarf að fara í, en núna enn eina ferðina á að varpa því yfir á neytendur að fara í dómsmál við fjármálafyrirtækin,“ segir Marinó.

Samtök lánþega senda frá sér yfirlýsingu

Guðmundur Andri Skúlason, stjórnarmaður í Samtökum lánþega hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Í ljósi tilkynningar frá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu hvar þær stofnanir telja sig yfir Hæstarétt hafnar vilja Samtök lánþega koma eftirfarandi áréttingu á framfæri.
 
1.     Lánasamningar sem að mati lánþega innihalda óskuldbindandi og ólögleg gengisviðmið skulu af lánveitendum leiðréttir til samræmis við nýfallin Hæstaréttardóm hvar skýrt er á um það kveðið að öll önnur ákvæði en téð gengisviðmið, standi.

2.     Þar til slíkum leiðréttingum á höfuðstól og afborgunum hefur verið skilmerkilega komið á framfæri við lánþega, skulu lánþegar ekki greiða af skuldbindingum sem um er getið í lið 1.
 
Viljum við jafnframt benda á að tilmæli Seðlabankans Íslands og Fjármálaeftirlitsins eiga sér enga lagastoð og hafa ekkert fordæmisgildi.
Með fordæmalítilli undanlátssemi gagnvart fjármálafyrirtækjum hafa Seðlabankinn og FME nú gert tilraun til að aðstoða fjármálafyrirtæki landsins við að vanvirða og hundsa rétt almennings.

Yfirlýsing sú er fram er sett í nafni Seðlabanka og FME lýsir betur en annað afstöðu þessara eftirlitsstofnana í garð hins raunverulega yfirvalds.

Lánasamningar sem að mati viðkomandi fjármálafyrirtækis innihalda óskuldbindandi gengistryggingarákvæði “

Í raun þarf ekki að segja meira og í raun lýsir þessi tilvitnaða setning því betur en allt annað af hverju hér fór heilt efnahagskerfi á hliðina.

Hæstiréttur hefur talað, en fjármálafyrirtækin tala bara hærra þangað til annað tveggja gerist, dómi og lögum er breytt þeim í hag, eða við þögnum. Og að þessu sinni munum við hvorki þagna né líða það að lögum verði aftur breytt til að bjarga fjármagnseigendum frá tapi.

Seðlabanki og FME hafa með yfirlýsingu þessari í raun lýst yfir stríði á hendur almennum borgurum þessa lands," segir ennfremur í tilkynningu frá Guðmundi Andra.

BÆTT INN KLUKKAN 13 - yfirlýsing frá Hagsmunasamtökum heimilanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert