„Þarna er kominn upphafspunktur“

Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar, fagnar því að nú sé hægt að komast af stað með einhvern grunn til útreikninga á gengistryggðum lánum. Hann vill hins vegar ekki taka afstöðu hvort útspil Seðlabanka Íslands og Fjármáleftirlitsins sé rétt eður ei. Ljóst sé að um millileik sé að ræða.

„Að öllum líkindum verður það Hæstiréttur sem kveður upp úr um þessi mál endanlega. En án þess að ég ætli að taka afstöðu til hvort þetta er rétt leið eða ekki, þá fögnum við því að það sé hægt að komast af stað með einhvern grunn til þess að hefja útreikning á þessum lánum. Vegna þess að þetta verður gríðarlega snúið mál. Þarna er þá kominn einhver upphafspunktur,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is.

Slæm tímasetning

Fyrirtækið gaf það út fyrir skemmstu að það myndi ekki senda út greiðsluseðla vegna bílasamninga með gengistryggð lán fyrir þessi mánaðamót. Kjartan tekur hins vegar fram að tímasetningin hjá Seðlabankanum og FME sé vond. Mikið sé um sumarfrí og margir starfsmenn séu með börn á leikskólaaldri, en sem kunnugt er loka skólarnir nú í júlí. 

Kjartan segir að reynt verði að kalla fólk til vinnu eins og hægt sé. „Tímasetningin gat ekki verið verri en akkúrat um mitt sumar,“ segir hann.

Hann ítrekar að málið sé mjög flókið. Menn átti sig ekki á flækjustigum þess. Málið sé einfalt hjá þeim sem hafi t.d. tekið bílalán fyrir fjórum árum og borgað af því án þess að þiggja nokkra aðstoð eða haft þörf fyrir sérstök greiðsluúrræði.

Málið flækist hins vegar til muna hafi bifreiðin verið seld og jafnvel skipt nokkrum sinnum um eigendur og lánið fylgt með. „Hver á að fá endurgreitt og hvað mikið, og hvernig eiga menn að skipta því á milli sín? Og hverjum eigum við að borga,“ spyr Kjartan og bætir við að fjölmörgum spurningum sé ósvarað.

Mörg álitaefni

Seðlabankinn og FME hafa gefið fjármögnunarfyrirtækjunum frest fram til 1. september til að endurreikna lánin. Kjartan ítrekar að tímasetningin sé slæm en tekur fram að allt kapp verði lagt á að ljúka málinu eins fljótt og auðið sé.

„Það eru svo mörg álitaefni og það þarf alveg klárlega að fá niðurstöðu dómstóla. Hvorki við né viðskiptavinir okkar eru að afsala sér neinum rétti, með því að menn reikni þetta á þennan hátt. Endanlegur útreikningur byggist alltaf á lögunum,“ segir Kjartan.

Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar.
Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka