Veður er tekið að hvessa nú þegar við suðurströndina en mun ná hámarki í fyrramálið, að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. „Veðrið verður hvað verst við suðurströndina í fyrramálið en svo lægir seinnipartinn.“ Spáð er austanátt og 35-40 metrum á sekúndu við suðurströndina í verstu hviðunum.
Nú er vindur kominn í 12 m/s á Vatnsskarðshólum og 15 m/s á Fagurhólsmýri. Bálhvasst er í Vestmannaeyjum.
„Það mun hvessa smám saman í nótt og verður mestur vindur í fyrramálið og fram yfir hádegi.“
Ekki er ráðlegt fyrir ferðafólk með tjaldvagna, hjólhýsi eða fellihýsi að vera á ferð á þessu svæði meðan veðrið gengur yfir.
„Óveðrið mun ná yfir svæðið sunnan við Öræfajökul og vestur eftir. Veðrið verður ekki svo hrikalega slæmt undir Eyjafjöllum, kannski 13-18 m/s.“
Lægðinni fylgir mikil rigning en draga fer úr vindi seinnipartinn og verður veður sennilega orðið skaplegt undir kvöld. Þó dálítið hvasst, jafnvel 15 m/s á stöku stað.
Þá mun veður versna á Norðvesturlandi eftir hádegi og getur vindur orðið 13-20 m/s á Breiðafjarðarsvæðinu.
Á höfuðborgarsvæðinu verður nokkur blástur og rigning með köflum.