Sjötíu og sex starfsmönnum verktakafyrirtækja verður sagt upp nú um mánaðamótin vegna fyrirséðs verkefnaskorts. Fimmtíu missa vinnuna hjá Ístaki en tuttugu og sex hjá Eykt.
Uppsagnirnar taka gildi 1. október en fyrirtækin binda vonir við að draga megi þær til baka ef ný verkefni fást.
Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, segir í Morgunblaðinu í dag, að uppsagnirnar komi ekki sér á óvart. „Við erum bara með hryggð í brjósti. Við vitum þetta og höfum talað um þetta. Sumir hafa talið okkur kalla „úlfur, úlfur“ en nú er hann bara kominn og byrjaður að éta. Þetta er bara það sem gerist þegar allt er stopp,“ segir Árni sem kveðst ekki bjartsýnn á þróun mála.