Bygging nýs fangelsis boðin út

Bygging nýs gæsluvarðhalds- og skammtímavistunarfangelsis verður boðin út fyrir lok september næstkomandi. Þá hefur dómsmála- og mannréttindaráðherra skipað nefnd sem ætlað er að gera tillögur að langtímaáætlun á sviði fullnustumála. Í hinu nýja fangelsi er gert ráð fyrir 50 fangelsisrýmum með deild fyrir kvenfanga.

Undirbúningur að þessari framkvæmd hefur staðið yfir í langan tíma en á fundi ríkisstjórnarinnar hinn 30. mars sl. var samþykkt tillaga Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra um að hefja þessa framkvæmd í haust, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Fangelsi í einkaframkvæmd

Ríkiskaup munu sjá um útboðið fyrir hönd ríkissjóðs en miðað er við að bjóðendur byggi húsið og leigi ríkinu. Vinna við forathugun hinnar nýju fangelsisbyggingar er að mestu lokið.

Nú er hafin vinna við gerð frumáætlunar og uppdráttar að fangelsinu en því er m.a. ætlað að koma í stað Hegningarhússins á Skólavörðustíg og fangelsisins í Kópavogi.

Staðarval óákveðið

Staðsetning fangelsisins hefur ekki verið ákveðin. Afplánunarrými í fangelsum hér á landi eru nú 149 talsins.

„Fyrirhugað fangelsi er liður í aðgerðum stjórnvalda til að bæta úr brýnni þörf fyrir fleiri fangelsisrými. Aðbúnaður fanga mun batna og öryggi starfsfólks verður tryggara í byggingu sem hönnuð er frá grunni sem fangelsi. Þá er rekstur sérhannaðs fangelsis mun hagkvæmari en bygginga sem ekki hafa upphaflega verið hannaðar sem fangelsi," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Nefndin sem dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur skipað mun hafa samráð við þá sem vinna að málum er lúta að fullnustu refsinga og fangelsismálum. Hún mun skila tillögum að langtímauppbyggingu fangelsa og drögum að frumvarpi, sem felur í sér heildarendurskoðun á lögum um fullnustu refsinga, eigi síðar en í júní 2011.

Nefndin er þannig skipuð: Haukur Guðmundsson skrifstofustjóri formaður og Skúli Þór Gunnsteinsson lögfræðingur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Anna Björg Aradóttir yfirhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu, Páll E. Winkel forstjóri og Erla Kristín Árnadóttir lögfræðingur frá Fangelsismálastofnun, Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari og fulltrúi í refsiréttarnefnd og Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. Fangelsismálastofnun mun leggja nefndinni til starfsmann eða starfsmenn eftir þörfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert