Þýskir ferðamenn festust í húsbíl sínum þegar hann fauk út af veginum við Sandfell í Öræfum laust eftir hádegið í dag. Björgunarsveitarmenn náðu fólkinu úr bílnum sem skemmdist talsvert. Ferðamennirnir slösuðust ekki við óhappið. Húsbíll franskra ferðamanna fauk á svipuðum slóðum í morgun.
Ekkert ferðaveður er nú í Öræfum, að sögn lögreglunnar á Höfn í Hornafirði. Tilkynning um fok húsbíls þýsku ferðamannanna barst laust eftir klukkan 13.00 í dag. Björgunarsveitarmenn voru fyrstir á staðinn. Ferðamennirnir tveir voru þá fastir í húsbílnum og gátu björgunarsveitarmenn aðstoðað þá við að losna úr prísundinni.
Ferðafólkið reyndist ekki slasað og var bæði lögreglu og sjúkraliði því snúið við. Óhappið varð við Sandfell í Öræfum, á svipuðum slóðum og húsbíll franskra ferðamanna fauk í morgun. Nokkuð hátt er fram af veginum þar sem húsbílarnir fuku.