Fréttaskýring: Kúabændur telja að kerfið muni bresta

Frumvarpi um háar fjársektir fyrir að selja mjólk sem framleidd hefur verið utan greiðslumarkskerfisins hefur enn verið frestað á Alþingi. Formaður Landssambands kúabænda segir að verði það látið óáreitt að afurðastöðvar selji mjólk sem framleidd er utan greiðslumarkskerfis muni það á endanum leiða til þess að kerfið bresti en það leiði til verðhækkana og samþjöppunar.

Efasemdarmenn um frumvarpið benda á móti á að það geti trauðla staðist ákvæði um atvinnufrelsi að banna mönnum að gerast kúabændur. Lengi hefur staðið til að leggja á sektir við að framleiða mjólk utan greiðslumarkskerfisins. Leggja átti slíkt frumvarp fyrir vorið 2009 en því var frestað og enn var frumvarpinu frestað en þingið fór í frí 24. júní.

 Andstæðingar sammála

Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem tóku til máls um frumvarpið studdu það allir, líkt og þingmenn Vinstri grænna. Eina andstaðan sem kom fram við þetta stjórnarfrumvarp var úr röðum þingmanna Samfylkingarinnar. Helgi Hjörvar sagði m.a. að með frumvarpinu væri verið að festa einokun Mjólkursamsölunnar í sessi. „Ef niðurgreitt opinbert kerfi getur ekki staðist frjálsa samkeppni við óniðurgreidda framleiðslu hlýtur úrkynjun þess að vera algjör,“ sagði hann. Atli Gíslason, þingmaður VG og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, var á öndverðum meiði og benti m.a. á ástandið í svínarækt, máli sínu til stuðnings. Það kerfi væri án eftirlits og stýringar og í „nokkuð mikilli rúst“. Allt stefndi í að einn framleiðandi næði 55-65% markaðshlutdeild.

 Dökk spá um afleiðingarnar

Verði frumvarpið að lögum verður sekt fyrir að selja hvern utankerfislítra á innanlandsmarkaði 110 krónur. Morgunblaðið greindi á föstudag frá áformum Vesturmjólkur um að hefja framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum, m.a. úr mjólk sem framleidd er utan kerfis, og sagði forsvarsmaður Vesturmjólkur að frumvarpið gæti riðið fyrirtækinu að fullu.

Frumvarpið var m.a. unnið í samvinnu við Bændasamtök Íslands. Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, segir að tilgangur greiðslumarkskerfisins sé að koma í veg fyrir offramleiðslu á innanlandsmarkaði og tryggja að stuðningsgreiðslur ríkisins nýtist sem best til lækkunar vöruverði. Eins sé því ætlað að jafna aðstæður þeirra bænda sem búa fjarri aðalmarkaðssvæðinu á SV-horninu og vera um leið grundvöllur þess að hægt sé að tryggja neytendum tilteknar grunnvörur, s.s. drykkjarmjólk, skyr og fleira, á sama verði úti um allt land. Auðvitað sé þetta kerfi ekki gallalaust fremur en aðrar markaðsaðferðir, en það hafi virkað vel og því til stuðnings bendir hann á að samkvæmt nýrri könnun séu mjólkurvörur ódýrari hér en að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins. Verði mönnum gert kleift að selja mjólk utan kerfis leiði það til þess að minna seljist af mjólk frá þeim bændum sem starfa innan þess. Þetta grafi undan kerfinu sem muni á endanum bresta. Líkleg afleiðing verði samþjöppun, líkt og hafi átt sér stað t.d. í svínaframleiðslu, algjört vald smásölunnar á markaðnum, hærra verð á grunnvörum, s.s. drykkjarmjólk, og minna vöruúrval.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert