Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur samþykktu einróma að stjórnarformaður fyrirtækisins skyldi vera tímabundið í fullu starfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heiðu Kristínu Helgadóttur, aðstoðarmanni Jóns Gnarr borgarstjóra. Heiða sendi tilkynninguna í tilefni spurninga á fundi í borgarráði í dag.
Í tilkynningunni segir m.a. orðrétt:
„Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur leggur höfuð áherslu á það veganesti sem lagt var fyrir nýja stjórn Orkuveitunnar á eigendafundi síðast liðinn föstudag. Þar kemur meðal annars fram að nýting auðlinda Reykjavíkurborgar skuli fara fram með þrennum hætti.
Í fyrsta lagi skuli auðlindir vera nýttar með þeim hætti að ekki sé gengið á framtíðarmöguleika til nýtingar þeirra. Í öðru lagi skuli allar ákvarðanir um nýtingu auðlinda og öll framkvæmd nýtingar einkennast af ást og virðingu fyrir umhverfinu. Í þriðja lagi er lög rík áhersla á að borgarbúar, sem eru eigendur Orkuveitunnar, njóti öruggrar þjónustu frá traustum aðilum og hafi upplýsingar um störf og stöðu fyrirtækisins.
Starf stjórnarformanns Orkuveitunnar felst meðal annars í því að innleiða og tryggja að þessu veganesti eigendanna sé fylgt eftir. Hlutverk stjórnarformanns OR er skilgreint í lögum um OR, reglugerð um OR, sameignarsamningi eigenda OR og síðast en ekki síst í starfreglum stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
Hann er í fullu starfi þar sem reglubundin verkefni hans verða fyrirsjáanlega umfangsmeiri á næstunni en áður í sögu fyrirtækisins.
Hann hefur sömu vinnuaðstöðu og fyrirrennarar hans.
Stjórnarformaður OR og öll stjórn fyrirtækisins lýtur valdi eigendafunda fyrirtækisins, sem lögum samkvæmt ákvarða jafnframt þóknun til þeirra.
Þóknun stjórnarformanns í fullu starfi tekur mið af launum sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg án fríðinda. Það þótti eigendum hæfilegt miðað við umfang starfsins og ábyrgð.
Eigendur OR samþykktu einróma að stjórnarformaður skyldi vera tímabundið í fullu starfi. Þeir hafa á engan hátt falið núverandi stjórnarformanni önnur verkefni en hin lögboðnu.“