Sextíu starfsmönnum var sagt upp hjá verktakafyrirtækinu KNH á Ísafirði nú um mánaðamótin. Það eru um þrír af hverjum fjórum starfsmönnum fyrirtækisins. Að sögn Sævars Óla Hjörvarssonar, eiganda KNH, eru nánast engin verkefni framundan í haust, þótt talsvert sé að gera núna.
Uppsagnirnar eru því viðbrögð við þeirri staðreynd að í haust verður ekkert fyrir allt þetta starfsfólk að gera ef ekkert bætist við, svo að uppsagnarfrestur verði runninn á enda þegar þar að kemur.
Sumir af þessum starfsmönnum eru nú að fá uppsagnarbréf í annað skipti frá fyrirtækinu, en hingað til hefur tekist að komast hjá því að fólk missi vinnuna þegar á hólminn er komið.
Alls var 173 starfsmönnum fyrirtækja sagt upp í hópuppsögnum í júní, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Þar af voru fjögur fyrirtæki í byggingageiranum og eitt í fiskvinnslu. Fram kom í Morgunblaðinu í morgun að Ístak sagði upp fimmtíu starfsmönnum og Eykt sagði upp tuttugu og sex.