Tunglfiskur í trollið

Tunglfiskurinn er um einn metri á lengd og líklega á …
Tunglfiskurinn er um einn metri á lengd og líklega á annað hundrað kíló. Fiskurinn var ísaður í 400 lítra fiskikari. mbl.is/Georg Skæringsson

Áhöfnin á Kap VE fékk tunglfisk í flottrollið og kom með þennan fágæta feng til Vestmannaeyja í gærkvöldi. Skipverjar gáfu Fiska- og náttúrugripasafninu í Vestmannaeyjum tunglfiskinn og er ætlunin að láta stoppa hann upp og hafa til sýnis í framtíðinni.

Kap VE var að makrílveiðum um 60 sjómílur út af Reykjanesi þegar tunglfiskurinn kom í flottrollið. Georg Skæringsson, verk- og tæknistjóri Þekkingaseturs Vestmannaeyja, sagði að tunglfiskurinn sé um einn metri að lengd. Hann áætlaði að fiskurinn vegi 100 til 200 kíló enda er hann mjög þykkur á skrokkinn.

„Þetta er hörkuskrokkur og þó er þetta bara lítið grey,“ sagði Georg. Hann sagði að tunglfiskar geti orðið töluvert stærri og vegið mörg hundruð kíló. Þetta sé því bara stækkandi tungl!

„Við ætlum að reyna að koma honum í uppstoppun,“ sagði Georg. Byrjað verður á að búa um fiskinn og koma honum í frost. Safnið í Vestmannaeyjum á fyrir eintak af uppstoppuðum tunglfiski en sá er miklu minni en sá sem kom í land í morgun.

Þyngsti beinfiskur jarðar

Jónbjörn Pálsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, sagði að tunglfiskar séu ekki algeng sjón hér við land. Yfirleitt sjást hér nokkuð stórir tungfiskar en litlir hafa einnig sést og m.a. rak einn lítinn tungfisk á Eyrarbakkafjörur fyrir nokkrum árum.

Tunglfiskurinn heldur sig í úthafinu og er aðallega að finna í hlýjum sjó. Þeir finnast í Atlantshafi, frá Azoreyjum og norður til Skandinavíu, einnig í Indlandshafi og Kyrrahafi.

Í fiskabók Gunnars Jónssonar fiskifræðings kemur m.a. fram að tunglfiskar hafi fundist reknir hér á fjörur allt frá árinu 1845. M.a. í Skagafirði, Húnavatnssýslu, á Landeyjasandi, á Garðskaga, í Grindavík og í Hvalfirði. Jónbjörn sagði að tunglfiskar hafi aðallega sést á sundi eða fundist reknir við suðurströndina. 

Tunglfiskur er þyngsti beinfiskur jarðar, samkvæmt upplýsingum úr viskubrunninum Wikipediu.  Þeir geta orðið rúmir þrír metrar að lengd og vegið yfir tvö tonn. Þar segir einnig að tunglfiskar séu eitraðir og að sala á þeim hafi verið bönnuð í Evrópulöndum.

Enskumælandi þjóðir kalla fiskinn „Sunfish“ eða sólarfisk. Íslendingum hefur ef til vill þótt hann of ómerkilegur til að kenna fiskinn við sólina og því valið að kalla hann tunglfisk, enda kvikindið nokkuð tungllaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert