Bílastraumur frá höfuðborginni

Þung umferð er nú út frá höfuðborgarsvæðinu.
Þung umferð er nú út frá höfuðborgarsvæðinu. Ómar Óskarsson

Þrír bílar, tveir fólksbílar og jeppi, rákust saman í Kömbunum nú síðdegis. Engin slys urðu á fólki. Þung umferð er nú í austurátt að sögn lögreglunnar á Selfossi. Þung umferð er einnig um Borgarnes út á land og hefur hún gengið áfallalaust að sögn lögreglunnar.

Bílalestir eru í báðar áttir við Blönduós, að sögn lögreglunnar þar. Þriggja bíla árekstur varð á Blönduósi um kl. 16.30 í dag. Ekki urðu alvarleg meiðsl á fólki en einn kvartaði þó um eymsli í hálsi.

Víða bæjarhátíðir um helgina

Um þessa helgi eru víða haldnar bæjarhátíðir og aðrir mannfagnaðir og samkomur. Fólki fjölgar óðum á Akranesi þar sem haldnir eru Írskir dagar. Á Vestfjörðum eru Markaðsdagar í Bolungarvík, Dýrafjarðardagar á Þingeyri og Hamingjudagar á Hólmavík. Talsvert margir ferðamenn voru á Ísafirði í dag, að sögn lögreglunnar þar í bæ.

Fjölmennt á Akureyri

Á Akureyri eru haldin tvö fjölmenn knattspyrnumót. Pollamót Þórs er ætlað reyndum knattspyrnuköppum, það er þeim sem komnir eru af pollaaldri. N1 mótið er hins vegar fyrir sannkallaða polla, það er yngstu kynslóðir drengja sem iðka fótbolta. „Það er alveg hellingur af fólki í bænum,“ sagði lögreglumaður sem rætt var við.

Á Akureyri koma einnig saman um þessa helgi  gamlir togarajaxlar sem stunduðu sjó á síðutogurunum. Þeir ætla að hittast og rifja upp gömul kynni. Einnig ætla þeir að minna á það mikilvæga hlutverk sem síðutogaraútgerðin gegndi við uppbyggingu landsins. Þá verður látinna félaga minnst.

Vinsæl Goslokahátíð og straumur í Galtalæk

Mjög margir eru komnir á Goslokahátíð í Vestmannaeyjum. Herjólfur hefur farið aukaferði og komið sneisafullur af ferðamönnum. Bæði brottfluttir Eyjamenn og  aðkomumenn, það er þeir sem ekki eru innfæddir, setja svip sinn á bæinn og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá hátíðarhaldanna.

Töluverður straumur er af fólki í Galtalæk, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Haldin verður útihátíð í Galtalæk um helgina. Börn undir 18 ára aldri verða að vera í fylgd forráðamanna til að vera hleypt inn á hátíðina. 

Töluvert af brottflutnum Hornfirðingum er nú komið á Humarhátíð á Höfn. Þar er haldin Humarhátíð um helgina. Í gær héldu fjölmennir árgangar Hornfirðinga árgangsmót og skemmtu sér m.a. við undirleik hornfirskra hljómsveita sem gerðu garðinn frægan á árum áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert