Tollgæslan á Seyðisfirði hafði afskipti af fjórum Rúmenum sem komu til landsins með Norrænu í gær, en þeir reyndu að smygla skartgripum til landsins. Tollverðir fundu 26 kíló af skartgripum sem búið var að koma haganlega fyrir í innri brettum 10 ára gamallar Mercedes Benz bifreiðar.
Árni Elísson, yfirmaður tollgæslunnar á Seyðisfirði, segir að skartgripirnir, mestmegnis hringar og hálsmen, hafi verið gerðir upptækir. Árni telur líklegt sé að um gulleftirlíkingar sé að ræða. Fólkið, tveir karlar og tvær konur, hafi sennilega ætlað að koma skartgripunum í verð hér á landi.
Hann segir erfitt að meta verðmæti gripanna. „Við mátum þetta svo að grunnverðmæti vörunnar væri tiltölulega lágt. Síðan er þessu prangað inn á fólk á háu verði á götunni, miðað við innkaupsverðið,“ segir hann.
Það megi að sjálfssögðu flytja inn skartgripi til landsins en það verði að gera með löglegum hætti, sem var ekki gert að þessu sinni.
Að lokinni skýrslutöku var fólkið sektað fyrir innflutninginn og skartið gert upptækt, sem fyrr segir.
Fólkið hefur keypt sér miða með Norrænu til baka, en þarf hins vegar að bíða í viku eftir næstu ferð.