Heyskapur hefur gengið mjög vel það sem af er sumri í Eyjafjarðarsveit og hafa margir bændur þegar lokið fyrri slætti.
Tíðarfarið hefur leikið við menn og varla hefur dottið dropi úr lofti síðan sláttur hófst um 10. júní. Spretta er góð hjá þeim sem báru snemma á og friðuðu túnin fyrir beit.
Nú væri nokkur væta vel þegin því jarðvegur er orðinn mjög þurr og hreinlega kallar á rigningu. Og í gær, fimmtudag, voru menn bænheyrðir því þá byrjaði að rigna.