Íslendingar gerðu jafntefli við Englendinga, 15:15, í 27. og næstsíðustu umferð Evrópumótsins í brids í Oostende í Belgíu nú undir kvöld. Ísland er í 4. sæti í mótinu en hefur nánast tryggt sér sæti á heimsmeistaramótinu í brids, sem haldið verður á næsta ári. Þá verða 20 ár liðin frá því Ísland vann heimsmeistaramótið í Japan.
Heimsmeistaramótið verður í Hollandi og Hollendingar fá því sjálfkrafa keppnisrétt þar. Hollenska liðið er nú í 5. sæti á EM en sex Evrópuþjóðir að auki fá keppnisrétt. Íslendingar eru nú 29,5 stigum fyrir ofan Búlgara, sem eru í 8. sæti fyrir lokaumferðina á morgun en mest er hægt að fá 25 stig í leik.
Staðan á mótinu fyrir lokaumferðina á morgun er sú að Ítalar hafa 304 stig, Pólverjar 297, Ísraelsmenn 284,5, Íslendingar 270, Hollendingar 255, Svíar 254, Rússar 252 og Búlgarar 240,5 stig. Íslendingar mæta Rússum í lokaumferðinni á morgun en Ísraelsmenn spila við Ítala. Með hagstæðum úrslitum eiga Íslendingar möguleika á bronsverðlaunum.