Icesave samningar halda áfram

Reuters

„Þetta heldur áfram,“ sagði Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður, sem á sæti í samninganefnd Íslendinga um Icesave málið. Nefndin fundaði með fulltrúum Breta og Hollendinga í gær og í dag. „Við verðum í samskiptum áfram og erum að vinna úr ákveðnum málum.“

Samninganefnd íslenskra stjórnvalda átti fundi í gær og í dag  með fulltrúum breskra og hollenskra stjórnvalda í Reykjavík um Icesave málið. Aðspurður kvaðst Jóhannes Karl ekkert geta tjáð sig um frekari fundarhöld en ítrekaði að nefndirnar myndu áfram eiga í samskiptum.

Jóhannes Karl sagði að fulltrúar Breta og Hollendinga séu að mestu þeir sömu og voru í viðræðunum áður. Stjórnarskipti í Bretlandi og Hollandi virðast því ekki hafa haft áhrif á skipan viðræðunefnda þeirra. 

„Þessu lauk áðan og við ákváðum að vera áfram í sambandi og vinna úr þessum atriðum sem við erum alltaf að reyna að ná utan um,“ sagði Jóhannes Karl nú síðdegis.

Bandaríski lögfræðingurinn Lee Buchheit fer fyrir íslensku samninganefndinni. Auk hans skipa nefndina Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjórar fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, ásamt Jóhannesi Karli Sveinssyni lögmanni og Lárusi Blöndal lögmanni, sem tilnefndur er af stjórnarandstöðuflokkunum sameiginlega. Þeim til ráðgjafar eru sérfræðingar ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint og lögfræðistofunnar Ashurst, að því er fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins.

Jóhannes Karl Sveinsson hrl.
Jóhannes Karl Sveinsson hrl. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert