Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, telur að það hafi verið mjög misráðið af hálfu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins að gefa út tilmæli um vaxtakjör, þrátt fyrir fyrirvara, ofan í dóm Hæstaréttar um gengistryggð lán.
„Ef lánveitendur efast um skyldur sínar og réttmæti niðurstöðu Hæstaréttar eða telja þar eitthvað óútkljáð, verða þau að fá niðurstöðu fyrir dómi. Hagsmunsamtök heimilanna hafa hvatt til þess að lagalegri óvissu verði eytt með þessum hætti,“ skrifar Ögmundur á heimasíðu sína.
Að mati Ögmunds er hlutverk ríkisvaldsins nú tvíþætt.
Í fyrsta lagi að gera allt sem í valdi framkvæmdavaldsins standi til að tryggja skjóta úrlausn mála fyrir dómstólum um þau atriði sem aðilar að lánasamningum kunni að véfengja.
Í öðru lagi að setja í gang markvissa vinnu um almennar aðgerðir í þágu skuldara.
„Þetta ber ríkisvaldinu að gera þegar í stað. Ef
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þessu andvígur - sem hann hefur verið til
þessa - þá þarf það að koma fram. Þjóðin á rétt á opinni umræðu um þessi
mál,“ skrifar Ögmundur.