„Þetta var fremur rólegt,“ sagði Hlynur Sveinsson í Björgunarsveitinni Gerpi frá Neskaupstað. Gerpir var að ljúka fyrstu vikunni í Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þau í Gerpi fengu þó ýmsar beiðnir um aðstoð.
„Þetta er þriðja árið sem við erum á hálendinu. Miðað við undanfarin tvö ár þá var þetta fremur rólegt. Eftir því sem við heyrðum þá kenna menn um eldgosinu hugsanlega og að einhverju leyti HM í fótbolta. Þetta geti haft áhrif á ferðamennskuna,“ sagði Hlynur.
Liðsmenn Gerpis voru staðsettir í Landmannalaugum. Alls voru sjö björgunarsveitarmenn þar og voru með einn bíl og tvö fjórhjól. Hlynur sagði að verkefnin sem þau í Gerpi fengu hafi verið nokkuð dæmigerð. Það er leit að ferðamönnum og að draga fasta bíla upp úr ám.
„Við fengum eitt útkall vegna bíls sem var fastur í á og týndur í svartaþoku á milli ákveðinna staða. Við þurftum að finna bílinn, draga hann upp og koma fólkinu í skjól. Bíllinn var skilinn eftir,“ sagði Hlynur.
Þetta var fyrsta vikan í sumar sem björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru á hálendinu. Auk Landmannalauga var önnur sveit á Kili. Nú bætast einnig við vaktir í Öskju og í Nýjadal á Sprengisandi.