Alls fengu 495 fjölskyldur í Kópavogi fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustu Kópavogs á árinu 2009 samanborið við 396 fjölskyldur árið á undan. Jafngildir það 25% aukningu. Þetta kemur fram í ársskýrslu Félagsþjónustu Kópavogs fyrir árið 2009.
Þar segir að eftirspurn eftir félagslegri ráðgjöf og fjárhagsaðstoð hafi aukist í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi í október 2008.
19% fleiri tilkynningar til barnaverndar
Í ársskýrslunni er farið yfir starf Félagsþjónustunnar á síðasta ári. Þar kemur meðal annars fram að tilkynningum til barnaverndar hafi fjölgað um 19% miðað við árið á undan. Þær voru alls 762 á árinu 2009 samanborið við 641 árið á undan. Langflestar tilkynningarnar bárust frá lögreglu. Helstu ástæður tilkynninga voru áhættuhegðun barns, svo sem afbrot, vímuefnaneysla eða erfiðleikar í skóla. Aðrar helstu ástæður voru ofbeldi eða vanræksla, samkvæmt tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri Kópavogs, segir í ávarpi í ársskýrslunni að erfitt sé að segja til um það hvers vegna barnaverndartilkynningum hafi fjölgað. Skýringuna megi þó líklega einna helst rekja til atvinnuleysis og fjárhagslegra erfiðleika.
„Starfsmenn eru sammála um að þyngd mála hafi aukist, ekki síst í unglingamálum, en vímuefnaneysla og kynferðislegt ofbeldi er, fremur í dag en áður, fylgifiskur alvarlegra vandamála hjá unglingum,“ segir hann enn fremur í skýrslunni.
Hann segir áhyggjuefni hve fá og vanmáttug úrræði fyrir þessa einstaklinga séu í boði hjá ríkinu. Hann kallar því eftir fleiri og sérhæfðari úrræðum og segir enn fremur að skoða þurfi möguleika á breyttu skipulagi barnaverndarmála og meiri samvinnu milli sveitarfélaga.
Í lok ávarpsins segir hann að Félagsþjónustan hafi þurft, eins og aðrar stofnanir bæjarins, að leita allra leiða til að auka ekki kostnað í því árferði sem nú er. Það hafi hins vegar reynst nánast útilokað. Eðli félagsþjónustu sé að svara þörfum bæjarbúa, ekki síst á erfiðum tímum. „Hagræðing innan stofnunarinnar hefur því verið fólgin í aukinni ráðdeild og að tryggja að nýting fjármagns sé með besta móti.“
Lögfræðingur hafi verið ráðinn á síðasta ári í hálft stöðugildi til að mæta auknum fjölda mála og jafnframt hafi verið ráðinn aðstoðarmaður í átaksverkefni í samstarfi við Vinnumálastofnun til að auka skilvirkni fjárhagsaðstoðar og minnka biðlista.