Thorsil ehf. hefur ekki breytt áformum sínum um að reisa kísilmálmverksmiðju í Þorlákshöfn. Forseti bæjarstjórnar Ölfuss og framkvæmdastjóri Thorsil ehf. mótmæla frétt Ríkisútvarpsins um að verksmiðjan muni rísa í Grindavík.
Sigríður Lára Ásbergsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ölfuss, og Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri sendu frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:
„Í tilefni fréttar Ríkisútvarpsins í gær og í dag um að fyrirhuguð kísilmálmverksmiðja í Þorlákshöfn yrði staðsett i Grindavík en ekki Þorlákshöfn vilja bæjaryfirvöld í Ölfusi og forsvarsaðilar Thorsil ehf upplýsa að engar breytingar hafa orðið á þeirri fyrirætlan Thorsil ehf að staðsetja verksmiðju sína í Þorlákshöfn. Unnið er að verkefninu samkvæmt áætlun, þ.m.t. úthlutun lóðar fyrir starfsemina og gert er ráð fyrir að á næstunni hefjist grunnrannsóknir vegna fyrirhugaðs umhverfismats.“