Besti árangur á Evrópumóti

Þorkell Þorkelsson

„Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Jón Baldursson, liðsmaður Íslands á Evrópumótinu í brids, sem fram fór í Belgíu. Keppninni er nú lokið og íslenska liðið hafnaði í 4. sæti. Það tryggir liðinu þátttökurétt á HM í Hollandi á næsta ári, í fyrsta skipti síðan 1991.

„Við vorum auðvitað að stefna mjög ofarlega í mótinu. Eitt af markmiðunum var að komast á Bermuda bowl, en þetta er í annað skiptið sem við vinnum réttinn til að spila þar. Það tókst,“ segir Jón. „Hitt var að reyna að ná verðlaunasæti en það tókst ekki.“

Mótið spilaðist þannig að í lokin þurfti í raun bæði stórsigur Íslendinga á Rússum og stórsigur Ítala á Ísraelum til að Íslendingar höfnuðu í þriðja sætinu og á verðlaunapalli. Ítalía, sem vann mótið, tapaði hins vegar fyrir Ísrael. ,,Þannig að það var svosem ólíklegt," segir Jón.

Hann er þó ánægður með leik liðsins á heildina litið og segir leikstíl liðsins vera ágengan, spilað sé stíft, sagnirnar séu stundum djarfar og farið sé „hart í geim og slemmur.“

„Við vorum góðir. Við fengum 17,8 stig að meðaltali í leik. Það er það mesta sem við höfum náð á Evrópumóti.“ Í þokkabót er árangurinn en ánægjulegri þar sem íslenska liðið er skipað áhugamönnum, á meðan tíu efstu landsliðin eru að mestu skipuð atvinnumönnum.

Liðið snýr heim til Íslands á morgun en í kvöld er lokahóf Evrópumótsins haldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert