Miklir fagnaðarfundir voru með gömlum togarajöxlum sem hittust á Akureyri í dag og sagt hefur frá hér á mbl.is. Nóg var um að tala, segja sögur og hlæja. Allar eiga þessar öldnu hafsins hetjur það sameiginlegt að hafa verið á síðutogurum, áður en skuttogarar ruddu sér til rúms fyrir fullt og allt.
Á meðal þess sem var á dagskránni var að heiðra Björgvin Sigurjónsson sem hannaði Björgvinsbeltið, handhægt björgunartæki sem henda má til þeirra sem fallið hafa í sjóinn.
Talið er að um tuttugu og tveimur mannslífum hafi nú verið bjargað með aðstoð Björgvinsbeltisins. Eins og sést á meðfylgjandi myndum var mikil stemning hjá hinum gamalreyndu togarajöxlum, sem sumir höfðu ekki sést í áraraðir.
Sæmundur Pálsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar segir að stemningin hafi verið mjög góð í hópnum. Þarna hafi hist gamlir félagar og vinir. Vináttubönd sem bundust í stórsjó og streði hefðu ekki trosnað.
Leiðrétting, sett inn kl. 13.05, 4. júlí.
Hið rétta er að Björgvin Sigurjónsson, hönnuður Björgvinsbeltisins, gaf Hollvinum Húna, sem gera út bátinn Húna II, Björgvinsbelti á samkomu togarajaxla í gær. Björgvin var því ekki sérstaklega heiðraður, þótt hann sé alls heiðurs maklegur því uppfinning hans er talin hafa bjargað 22 mannslífum.
Sjá meira hér: Endurfundir togarajaxla