Ekki ber á öðru en að skemmtanahald dagsins fari vel fram um allt land. Umferð hefur víðast hvar verið nokkuð mikil en ekkert lögregluembætti sem upplýsingar fengust frá nú í eftirmiðdegið hafði þurft að takast á við nein umferðarslys.
Lögreglan á Sauðárkróki tók þó fjóra ökumenn fyrir ofhraðan akstur og sá sem hraðast ók var á 128 kílómetra hraða á klukkustund.
Lögreglan á Blönduósi stöðvaði fimmtán ökumenn í gærkvöldi fyrir of hraðan akstur, þar af einn rétt við Staðarskála, en sá var á 140 kílómetra hraða á klukkustund. Þá stöðvaði lögreglan sex ökumenn fyrir of hraðan akstur í dag, þar af reyndist einn ökumaðurinn ölvaður, en hann var stöðvaður í morgun.
Nú í eftirmiðdegið var svo einn stöðvaður fyrir of hraðan akstur og reyndist þá ekki vera með ökuréttindi, enda hafði hann misst þau og var ekki búinn að taka bílprófið aftur. Var bíll hans ferjaður á lögreglustöðina á Blönduósi. Þar er nú verið að taka skýrslu af manninum en að því loknu verður honum væntanlega sleppt. Ekki fær hann þó að halda för sinni áfram akandi, af augljósum ástæðum.
Írskir dagar fara nú fram á Akranesi og hafa gengið vel það sem af er. Að sögn lögreglu er ívið minna af fólki á tjaldstæðinu en var í fyrra, en hins vegar mikið af fólki og margir tjalda í görðum við heimahús hjá kunningjum sínum. Búist er við fleira fólki í bæinn í kvöld þegar lopapeysuballið fer fram.
Búist er við að kvölddagskráin á Humarhátíðinni á Höfn í Hornafirði verði færð inn í íþróttahúsið í kvöld og verður þar dansleikur með Ingó og veðurguðunum. Talsvert hefur rignt á gesti humarhátíðarinnar í dag og því verða margir eflaust fengir að vera þurrir og hlýir innan dyra í kvöld. Sem fyrr hefur verið boðið upp á humar í ýmsum útfærslum á hátíðinni og bar mikið á humarskyndibita núna, svo sem humarpylsum, humarpizzum og humarlokum.
Í Vestmannaeyjum er Goslokahátíðin og gróf áætlun lögreglu er að tvö til þrjú þúsund manns séu í bænum fyrir utan heimamenn. Hápunktur hátíðarinnar er í kvöld þegar fólk safnast saman í Skvísusundi. Herjólfur hefur farið tvær aukaferðir til eyja troðfullur af fólki og er mikil stemning í bænum. Allt hefur farið vel fram fyrir utan að einn maður fékk að gista fangageymslur í nótt vegna ölvunar.
Lögreglan á Hvolsvelli segir að útihátíðin í Galtalæk hafi farið vel fram og þar séu ef til vill um fjögur þúsund manns að skemmta sér. Þar ku allt hafa farið vel fram í dag, en lögregla er þar þó með á annan tug manna á vakt.