Borgarstjórnarmeirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar nýtur stuðnings 71% borgarbúa.
Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Miðlun ehf. vann fyrir Morgunblaðið. Spurt var hvort fólk styddi nýmyndaðan meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Um 29% svöruðu neitandi.
„Þessi niðurstaða sýnir hefðbundin hveitibrauðsdagaáhrif,“ segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði. „Þetta þýðir bara það að Besti flokkurinn og Samfylkingin fá gott veður í upphafi. Það er jákvætt fyrir nýjan meirihluta en svona háar tölur endast nú eiginlega aldrei þannig að þessi niðurstaða segir ekkert um framhaldið, en sýnir þó að borgarbúar gleðjast enn með Jóni Gnarr,“ segir hann.