Svæðaskiptingu strandveiða þarf að skoða betur og það hvernig aflamagninu er úthlutað á hvert svæði, að mati Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.
Hún vekur athygli á því að bátar á svæði A, sem nær frá Snæfellsnesi að Húnaflóa og þar með yfir stóran hluta af kjördæmi hennar, hafi fengið úthlutað að jafnaði 2,9 tonnum á hvern bát sem stundar strandveiðar. Á svæði B séu það 3,1 tonn, 3,4 tonn á svæði C og 2,3 tonn á svæði D, sem er Suðurland og Faxaflói.
„Það hlýtur að koma til álita að bregðast við þessu misræmi nú þegar, áður en strandveiðum sumarsins lýkur, með því að færa aflamagn milli svæða við upphaf næsta strandveiðitímabils í ágúst.
Í framtíðinni má svo hugsa sér að bíða með niðurskipan aflamagnsins þar til ljóst er hversu margir bátar verða að veiðum á hverju svæði,“ segir Ólína, í pistli á bloggsíðu sinni.
Pistilinn í heild sinni má lesa hér.