Fréttaskýring: X-mál og ákærur vegna hruns vofa yfir

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. Ómar Óskarsson

Dómsmál sem bárust héraðsdómstólum á fyrstu sex mánuðum þessa árs eru mun færri en á sama tíma í fyrra en þá náði málafjöldinn nýjum og áður óþekktum hæðum. Samt sem áður er ekki hægt að reikna með að álagið á dómstólana muni minnka, raunar þvert á móti, að mati formanns dómstólaráðs. Ástæðan er sú að búast má við að umfangsmikil mál frá sérstökum saksóknara vegna bankahrunsins komi brátt til kasta dómstólanna auk þess sem svokölluðum X-málum hefur fjölgað verulega. Í báðum tilfellum getur málsmeðferð verið bæði tímafrek og flókin.

Upplýsingar um málafjölda komu fram í samantekt sem dómstólaráð birti í gær. Mestu munar að mun færri einkamál hafa verið þingfest nú en í fyrra en einnig hefur sakamálum fækkað töluvert.

Símon Sigvaldason, héraðsdómari í Reykjavík og formaður dómstólaráðs, segir að ekki sé hægt að segja með vissu til um ástæður þess að einkamálum fækkar svo mjög. Einkamálum hefði fjölgað verulega rétt fyrir og eftir hrun, þ.e. á árunum 2008 og 2009. Skýringin á fækkun nú gæti verið sú að fljótlega eftir hrun hefði orðið ljóst hvaða mál þyrfti að höfða, s.s. vegna skulda eða til að leysa úr öðrum ágreiningi vegna samninga. Ekki væri heldur útilokað að hækkun gjalda fyrir að þingfesta einkamál hefði áhrif. Í ársbyrjun 2010 var gjaldskránni breytt þannig að gjaldið tekur mið af þeim hagsmunum sem eru undir í málinu og getur orðið allt að 90.000 krónur ef krafan er hærri en 30 milljónir.

Þótt einkamálum hafi fækkað er ekki þar með sagt að álagið á dómstóla muni minnka. Raunar má nú þegar sjá merki um hið gagnstæða því svonefndum X-málum, þ.e. ágreiningsmálum sem skiptastjórar þrotabúa og slitastjórna höfða við slit fjármálafyrirtækja, fjölgaði gríðarlega á fyrstu sex mánuðum þessa árs, eða úr 15 í fyrra í 273. Búist er við að þessum málum fjölgi verulega í haust og á næsta ári. Meðferð X-mála fyrir dómstólum getur verið afar tímafrek enda er í þeim oft tekist á um mjög flókin lögfræðileg úrlausnarefni. Á hinn bóginn gæti niðurstaða í tiltölulega fáum málum gefið fordæmi fyrir mörg önnur mál og þannig myndi snarlega grynnka á málafjöldanum. Um þetta ríkir algjör óvissa, eins og gefur að skilja.

„Þetta er annar af tveimur málaflokkum sem menn telja að geti orðið gríðarlega tímafrekir. Hinn pósturinn eru mál frá sérstökum saksóknara en enn sem komið er hefur bara eitt slíkt mál verið þingfest,“ segir Símon.

Aldan ekki komin að landi

Miðað við þetta má segja að sú alda erfiðra dómsmála og álags sem menn hafa vænst í kjölfar hrunsins sé ekki komin að landi, a.m.k. ekki af fullum þunga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert