Skemmtanahald fór almennt vel fram í Galtalæk í Landsveit í nótt og var að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli minni erill þar nú í nótt en á aðfaranótt laugardags. Þrír voru þó teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og einn sem grunaður var um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Nokkur smærri fíkniefnamál komu einnig upp á svæðinu, en enginn þurfti að gista fangageymslur lögreglu að þessu sinni. Margir komu í Galtalæk í gærkvöldi til að hlýða á tónlist en fóru svo aftur í bæinn að því loknu. Ekki eru því mikið fleiri á svæðinu nú en í gærmorgun.
Í Vestmanneyjum náði goslokahátíðin hápunkti sínum í Skvísusundi í gærkvöldi. Að sögn lögreglunnar í Eyjum fór allt vel fram þar og engin mál komu upp. Drykkja var þar reyndar mikil en engu að síður fóru skemmtanahöldin vel fram í alla staði.