Fimm manna rannsóknarnefnd á vegum Elkem, hins norska móðurfélags járnblendiverksmiðju Elkem á Íslandi, mun á morgun hefja nákvæma rannsókn á tildrögum banaslyssins sem varð á þriðjudag.
Þá brenndist starfsmaður illa eftir að sprenging varð í einum af þremur ofnum verksmiðjunnar. Hann lést í kjölfarið. Eftir slysið var allri starfsemi hætt tímabundið.
Að sögn Einars Þorsteinssonar, forstjóra Elkem á Íslandi er nú búið að staðfesta að það sem fór úrskeiðis var bundið við þennan eina ofn, og því er starfsemi hafin að nýju í öðrum hlutum verksmiðjunnar.
Hins vegar á eftir að komast nákvæmlega að því hvernig slysið varð og hvað orsakaði það. Slys af nákvæmlega þessum toga er að sögn Einars ekki þekkt af fyrri dæmum hjá Elkem.
Ofninn þar sem sprengingin varð verður því ekki notaður fyrr en búið er að komast að því nákvæmlega hvernig slysið varð og búið verður að gera ráðstafanir til að það geti ekki gerst aftur.
„Þeir hefja störf á morgun og munu verða að alveg þangað til það er búið að komast að því hvað olli slysinu,“ segir Einar um rannsóknarnefndina. Fjórir sérfræðinganna eru frá Noregi og einn líklega frá Kanada.