Nokkur erill var hjá lögreglunni á Akranesi í nótt, en skemmtanahöldin á írskum dögum þar í bæ fóru þó vel fram á heildina litið. Gestum á hátíðinni fjölgaði talsvert í gærkvöldi í tengslum við hið árlega lopapeysuball. Veður var gott og að sögn lögreglu skemmtu flestir sér vel.
Aðeins einn þurfti að gista fangageymslur en það var að hans eigin ósk vegna of mikillar ölvunar. Engin stór mál komu upp og var skemmtanahaldi að mestu lokið og ró að færast yfir bæinn upp úr klukkan fjögur í nótt.
Á sama tíma var nóttin sérlega róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en skemmtanahald var lítið í bænum og fáir að skemmta sér. Engin sérstök mál komu upp að sögn lögreglu þar, nema hvað þrír ökumenn voru teknir fyrir akstur undir áhrifum, ýmist áfengis eða vímuefna.