Foreldrar tveggja ára barna í Norðlingaholti eru óánægðir með að börn sín komist ekki inn í eina leikskóla hverfisins, Rauðhól.
Alls eru 66 börn í hverfinu að verða tveggja ára á árinu. Af þeim komast aðeins sex inn í Rauðhól. Alls innritast 37 börn í leikskólann í haust, flest á aldrinum 3-5 ára.
Ekkert tveggja ára barn kemst á leikskólann eftir kennitöluröð, þau sem komast inn eru öll í forgangi skv. reglum leikskólasviðs. Yngstu börnin sem komast inn eftir kennitöluröð í haust eru nýorðin þriggja ára, en ekki næst að innrita nema hálfan 2007-árganginn í hverfinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.