Æsir í manni réttlætiskenndina

Ellen Kristjánsdóttir sést hér í miðju mótmælanna við Seðlabankann í …
Ellen Kristjánsdóttir sést hér í miðju mótmælanna við Seðlabankann í dag. Ómar Óskarsson

„Bankarnir, AGS og öll þessi fyrirtæki hanga saman. Það er einhver mafía í gangi hér og ég skil ekki hvers vegna er ekki búið að gera eitthvað fyrir heimilin fyrir löngu,“ segir Ellen Kristjánsdóttir söngkona, sem meiddist í mótmælum við Seðlabanka Íslands í dag.

Nokkur hundruð manns  söfnuðust saman við hús Seðlabankans í dag og mótmæltu því hvernig tekið hefur verið á gengistryggðum lánum eftir að Hæstiréttur dæmdi gengistrygginu lána í krónum ólöglega. Einn maður var handtekinn eftir að streitast á móti lögreglu en Ellen var ekki handtekin.

Ellen segist ekki skilja hvað Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, er að hugsa í þessum málum og ekki heldur hvað stjórnvöld hafa verið fljót að bregðast við og taka málstað banka og fjármálafyrirtækja í þessu máli, eftir að hafa ekki gert neitt þar á undan í þágu fólksins í landinu.

„Það æsir upp í manni réttlætiskenndina," segir Ellen. Hún meiddist á handlegg í dag og kveðst aðspurð vera blá og marin eftir viðskipti sín við lögregluna. Eins og hún segir frá sat hún við innganginn í húsið þegar lögreglumaður sagði henni að færa sig um set.

„Ég fór ekki alveg eftir þeim fyrirmælum. Ég sagði nei við því,“ segir Ellen. Spurð hvort þessi viðbrögð lögreglumannsins hafi verið tilefnislaust segir hún: „Já, eiginlega. Ég er nú voðalega friðsöm.“

Þá beið lögreglumaðurinn ekki boðanna, sneri upp á handlegginn á henni og færði hana frá. Að hennar sögn brugðust mótmælendur illa við atvikinu og sögðu lögreglumanninum að biðjast afsökunar á þessu. Það gerði hann ekki, heldur fór til baka og tók sér stöðu við húsið.

Ellen leitaði á slysadeild en fór þaðan eftir einnar og hálfrar klukkustundar bið, þegar henni var tjáð að biðin yrði tveir tímar í viðbót. ,,Ég ætla að fara þangað aftur í kvöld og athuga hvort það verður ekki rólegra þá," segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert