Alls óviðbúnir gengislánadómi

Birkir Jón Jónsson, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins.
Birkir Jón Jónsson, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins.

„Fundurinn staðfesti að hvorki ríkisstjórnin né lykilstofnanir í samfélaginu hafa heildaryfirsýn yfir þetta mál,“ sagði Birkir Jón Jónsson, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins. Hann sat sameiginlegan fund viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar Alþingis um myntkörfulánin.

Efni fundarins í morgun var tilmæli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins vegna gengistryggðu lánanna og áhrif dóms Hæstaréttar varðandi þau.  Þingmenn Framsóknarflokksins óskuðu eftir fundinum. Á hann voru boðaðir seðlabankastjóri, viðskiptaráðherra, fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu, talsmaður neytenda, fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna og fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Birkir Jón sagði að þótt bæði stjórnvöld og lykilstofnanir hafi vitað að dómur Hæstaréttar væri væntanlegur liti út fyrir að enginn hafi búið sig undir þær lyktir málsins sem urðu.

„Mér finnst sláandi hvað stjórnvöld hafa verið illa undirbúin gagnvart þessum dómi,“ sagði Birkir Jón. „Það færir okkur enn einu sinni heim sanninn um að ríkisstjórnin veldur ekki verkefninu, sem er að leysa úr erfiðum efnahagsmálum þjóðarinnar - ekki síst skuldavanda heimila og fyrirtækja.“

Birkir Jón sagði að menn hafi nefnt mikinn kostnað sem sé samfara niðurstöðu Hæstaréttar. „Ég dreg þær tölur mjög í efa sem ráðherrar í ríkisstjórninni hafa skellt fram um kostnað.

Það er vegna þess að með leiðréttingu á þessum stökkbreyttu lánum mun greiðsluvilji almennings aukast til muna. Ef stjórnvöld hafa virkilega haldið að fólk gæti greitt af lánum sem jafnvel hafa tvö- eða þrefaldast á örstuttum tíma, þá er það ekki í samræmi við þann veruleika sem við lifum í í dag.“

-En eiga fjármálafyrirtækin sé öflugri talsmenn í þessu máli en heimilin í landinu?

„Ég upplifi það svo að innan ríkisstjórnarinnar eigi skuldug heimili afar fáa talsmenn, en þeir eru reyndar til. Það hvernig haldið hefur verið á þessu máli og stefnuleysið sem blasir við sýnir að það verður einhver breyting að eiga sér stað á stjórnarfarinu í landinu,“ sagði Birkir Jón.

Hann telur að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar verði að eiga nánara samstarf en þeir hafa átt vegna ástandsins sem ríkir. Framsóknarmenn hafi oft kallað eftir því. 

Birkir Jón sagði að setja þyrfti lög um hópmálsókn til að flýta fyrir endanlegri niðurstöðu gengislánamálsins. Frumvarp um hópmálsókn bíður afgreiðslu Alþingis.  Hann sagði það ekkert áhyggjumál þótt kalla þurfi Alþingi saman til að afgreiða málið. Þúsundir heimila bíði eftir niðurstöðu.

„Síðan þurfa dómstólar og allir málsaðilar að leggjast á eitt um að málsmeðferð sem snertir vaxtakjörin í öllum þessum málum verði lokið sem allra fyrst,“ sagði Birkir Jón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert