Jón Ásgeir Jóhannesson greiddi fyrir skömmu upp 1,3 milljarða (10 milljón dollara) húsnæðislán vegna lúxusíbúðar hans á Manhattan í New York. Greiðslan var millifærð af reikningi hans í Royal Bank of Canada, að því er fram kom í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld.
Upplýsingar þessa eðlis hafa verið lagðar fram í tengslum við málssókn slitastjórnar Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri og sex öðrum. Þeim var stefnt vegna kröfu upp á 260 milljarða króna.
Lögmenn slitastjórnarinnar hafa m.a. bent á að fasteignir Jóns Ásgeirs og konu hans í New York geti hafa verið keyptar fyrir meintan ólögmætan ágóða af stórfelldum brotum þeirra og viðskiptafélaga þeirra gegn Glitni.