Svifflugfélag Íslands hefur aflýst Íslandsmótinu í svifflugi, sem átti að fara fram nú í vikunni, vegna nýinnleiddrar evrópskrar reglugerðar um fylgiskjöl með svifflugum.
Í Morgunblaðinu í dag segir Kristján Sveinbjörnsson, formaður Svifflugfélags Íslands, reglugerðina auka pappírsvinnu og fela í sér auknar kröfur um viðhald.
„Þetta varð til þess að degi áður en mótið átti að hefjast voru nánast allar svifflugur óflughæfar á Íslandi. Ástæðan er sú að það er mikil vinna sem þarf að ljúka til að uppfylla pappírsskilyrði sem fylgja þessum reglum, þetta er flókið og það er töluverð bið í meðferðinni hjá Flugmálastjórn.“