Handrukkarar fyrir dóm á föstudag

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Fimm karlmenn ákærðir fyrir handrukkun fá að svara til saka á föstudag þegar mál þeirra verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness. Mennirnir eru m.a. ákærðir fyrir frelsissviptingu, rán og sérstaklega hættulega líkamsárás. Sakir þeirra eru þó mismiklar samkvæmt ákæru; tveir eru taldir höfuðpaurar, einn hlutdeildarmaður og aðrir tveir eru ákærðir fyrir minniháttar líkamsárás.

Málið kom upp 9. apríl sl. þegar lögregla Suðurnesja stöðvaði bifreið þar sem menn í henni voru grunaðir um gripdeild með því að hafa tekið verkfæratöskur fyrir framan leikskóla í bænum stuttu áður. Þrír menn voru í bílnum og viðurkenndi einn þeirra að hafa tekið verkfæratöskurnar. Við skýrslutöku lýsti hann því, að hann hafi verið sviptur frelsi sínu aðfaranótt 9. apríl og pyntaður sömu nótt af fimm mönnum.

Maðurinn sagði málið vera sprottið af ógreiddri peningaskuld og hann hafi verið neyddur til að taka umræddar verkfæratöskur upp í hana.

Einn ákærðu áður dæmdur fyrir handrukkun

Í ákæru ríkissaksóknara segir að maðurinn hafi verið í haldi frá klukkan 2 um nótt til klukkan 15 þegar lögregla stöðvaði bílinn. Ítrekað hafi verið veist að manninum á þeim tíma með ofbeldi og honum hótað áframhaldandi ofbeldi og frelsissviptingu yrði hann ekki við kröfum um peningagreiðslu.

Einn karlmaður situr enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins en 30. júní sl. var varðhaldið framlengt til 16. júlí nk. Hann er ásamt einum öðrum talinn höfuðpaur í málinu. Brot þeirra eru talin svo alvarleg að þau varði allt að 16 ára fangelsi.

Nokkrir mannanna fimm eiga að baki sakarferil. Einn þeirra var dæmdur í 22 mánaða fangelsi árið 2002 fyrir nauðgun og annar í árs fangelsi í mars sl. fyrir handrukkun, þ.e. fyrir að ryðjast inn á heimili manns, í félagi við annan, beita hann ofbeldi og hirða af honum eigur upp í skuld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert