Seinkunin gríðarleg vonbrigði

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri. Friðrik Tryggvason

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði, ekki bara fyrir Sunnlendinga heldur alla landsmenn,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, um seinkunina sem ljóst er að verður á breikkun Suðurlandsvegar. Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi samning Vegagerðarinnar við Vélaleigu AÞ ehf. um verkið.

„Það er með ólíkindum að mikilvægar stórframkvæmdir skuli tefjast vegna formsatriða og mistaka. Maður hefði ekki trúað að það gæti gerst,“ sagði Aldís. Hún sagði að sér þætti undarlegt að hægt skuli vera að véfengja niðurstöðu útboðs á vegum hins opinbera með þeim hætti sem Kærunefnd útboðsmála gerði.

„Það er búið að bíða eftir þessari framkvæmd. Þessi stórframkvæmd átti ekki bara að bæta umferðaröryggi heldur einnig að ýta hjólum efnahagslífsins í gang. Þetta eru mjög mikil vonbrigði.“

Alls buðu 15 fyrirtæki í verkið. Áætlaður verktakakostnaður var 750 milljónir króna. Tólf tilboð bárust sem voru undir áætluðum verktakakostnaði og þrjú sem voru hærri. Tilboð Vélaleigu AÞ ehf., sem var tekið var tæplega 619 milljónir, þar á eftir kom Háfell ehf. með tæpar 630 milljónir og svo Ingileifur Jónsson ehf. með tæplega 642 milljónir. 

Aldís sagði þá spurningu vakna strax hvort einhver af þeim verktökum sem voru ofan við Háfell ehf. og Vélaleigu AÞ ehf. í útboðinu teljist hæfur til að vinna verkið að mati kærunefndarinnar. „Auðvitað er það líka spurning hvort rétt hafi verið staðið að útboðinu yfirhöfuð og hvort ekki sé eðlilegast að bjóða þetta út aftur,“ sagði Aldís.

Tilboð í verkið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert