„Við báðum fjármálafyrirtækin um upplýsingar tengdar þessu strax í febrúar. Það hefur gengið hægar en við hefðum viljað að ná þessu út úr kerfum bankanna,“ segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Hann samþykkir ekki þá gagnrýni Birkis Jóns Jónssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, að stjórnvöld hafi verið algerlega óundirbúin fyrir dóm Hæstaréttar um gengistryggingu lána. Samkvæmt upplýsingum úr Seðlabankanum var einnig byrjað að undirbúa þetta þar í ársbyrjun.
Gunnar segir að í maí hafi komið grófar upplýsingar út úr bönkunum um gengislánin og þá verið óskað eftir ýtarlegri gögnum. Þau hafi svo borist eftir að dómur féll í júní og séu enn að berast.
Það hefur því tekið banka landsins um hálft ár að útvega upplýsingar sem gefa heildarmynd af þeim hluta eignasafns þeirra, sem felst í gengistryggðum lánum.