Borgi ekki umfram greiðsluáætlun

Þór Saari.
Þór Saari. mbl.is/Árni Sæberg

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segist á bloggsíðu sinni vilja senda öllum skuldurum gengistryggðra lána þau tilmæli, að borga ekki krónu meir af lánunum en segir í upprunalegri greiðsluáætlun og snúa sér til Hagsmunasamtaka heimilanna um nánari útfærslu á því.

Þá mælist Þór til þess, að ef um miklar ofgreiðslur sé að ræða eigi skuldarar að hætta alveg að borga þar til ofgreiðslurnar hafa verið nákvæmlega reiknaðar út og endurgreiddar með vöxtum samkvæmt 18. grein vaxtalaga eða höfuðstóll lækkaður á sömu forsendum. 

„Tilmæli mín til alls almennings eru að krefjast breytinga á ríkistjórninni þar sem skipstjóri og stýrimenn þjóðarskútunnar eru komin á aldur, þrotin kröftum og hugrekki og algerlega úrræðalaus," segir Þór ennfremur.

„Hvað varðar innstæður í bönkum þá eru komnar upp miklar efasemdir um getu ríkisins til að standa undir loforðum SJS (Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra) um að þær séu tryggðar.

Tilmæli mín varðandi sparifé fólks eru því að menn hafi vara á sér og reyni að finna fjármálastofnun sem stendur utan við þá firringu sem enn er í gangi í mestum hluta fjármálakerfisins. Hér er ekki um auðugan garð að gresja en þó má benda á að Hreyfingin skiptir við Sparisjóð Strandamanna og einnig hefur Sparisjóður Þingeyinga staðið utan við vitleysuna," segir Þór.

Bloggsíða Þórs Saari

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert