Kaup Karls Wernerssonar á Galtalækjarskógi í Landsveit fyrir þremur árum voru að hluta eða öllu greidd með lánum sem Karl fékk frá fjölskyldufyrirtækinu Milestone, fjárfestingarfélagi Karls og Steingríms bróður hans. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í dag.
Útvarpið sagði, að lánin hefðu síðan verið færð niður í bókhaldinu á móti arðgreiðslum sem þrotabú Milestone telji að hafi verið ólöglegar. Kröfuhafar í þrotabú Milestone segjast eiga inni nærri 100 milljarða króna hjá búinu.
Fram kom í mars, að kröfuhöfum var greint frá því að til stæði að höfða rúmlega tuttugu dómsmál, eða jafnvel fleiri vegna reksturs Milestone áður en fyrirtækið fór í þrot. Þau eru vegna eignarsölu, lána og ábyrgðar stjórnarmanna.