Blásið var í vúvúsela, búsáhöldum klingt og reynt að þvinga upp hurð Seðlabankans í hádeginu í gær. Hátt í fimm hundruð manns mótmæltu þar framferði Seðlabanka og Fjármálaeftirlits gagnvart lánþegum gengistryggðra lána.
Einn var handtekinn eftir að hafa neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu, sem greip inn í þegar fólkið var byrjað að bera eldsmat að aðalinngangi bankans og farið að skvetta á hann vökva.
„Þetta leit út eins og bálköstur,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í Morgunblaðinu í dag. Þá taldi lögregla sér ekki lengur til setunnar boðið. Að sögn mótmælenda var lögregla harðhent.