Allir sakborningarnir þrír í máli sérstaks saksóknara gegn Jóni Þorsteini Jónssyni, Ragnari Z. Guðjónssyni og Styrmi Þór Bragasyni lýstu yfir sakleysi sínu við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þeir vildu ekki tjá sig við fjölmiðla að loknu þinghaldi. Málinu var frestað til 30. september nk.
Jón Þorsteinn sem er fyrrverandi stjórnarmaður Byrs og Ragnar, fyrrverandi sparisjóðstjóri, eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna 1,1 milljarðs króna lánveitingar Byrs til Exeter Holding vegna kaupa á stofnfjárbréfum í Byr en seljandi bréfanna var MP-banki. Þá er Styrmir Þór, fyrrverandi forstjóri MP-banka, ákærður fyrir hlutdeild í brotinu en lánið er talið hafa takmarkað tjón MP-banka á kostnað sparisjóðsins.
Dómþing var stutt og lauk eftir að sakborningar höfðu lýst afstöðu sinni til ákærunnar. Arngrímur Ísberg, dómari málsins, spurði í kjölfarið hvort verjendur hygðust skila greinargerðum og hvenær það yrði. Var fallist á, að greinargerðum vegna málsins verði skilað í lok september.
Ragnar H. Hall, verjandi Styrmis Þórs, lét þau orð falla í dómsal, að hann teldi töluverðan tíma í að málið fengi aðalmeðferð. Arngrímur spurði Ragnar hvort hann ætti við að úrskurði þyrfti að kveða upp áður og svaraði Ragnar því til, að hann ætti frekar von á því.