Umferðin í júní á 16 völdum talningarstöðum dróst mikið saman miðað við sama mánuð fyrir ári. Að sögn Vegagerðarinnar var nærri 9 prósenta minni umferð núna í júní er fyrir ári og samdrátturinn í umferðinni á fyrri hluta ársins nemur 4,6 prósentum samanborið við sama tímabil í fyrra.
Vegagerðin segir, að umferð hafi minnkað á öllum talningarstöðunum 16 sem hafi ekki áður gerst á þessum árstíma. Útlit sé því fyrir að umferðin í ár verði töluvert minni en í fyrra og svipuð eða jafnvel minni en hún var árið 2006.
Þetta er mesti samdráttur í umferð milli ára fyrir sex fyrstu mánuði ársins frá því að Vegagerðin hóf að taka saman umferðartölur á þessum stöðum og einnig í fyrsta sinn sem samdrátturinn er á öllum landssvæðum bæði frá áramótum og svo milli júní-mánaða.
Vegagerðin segir, að samdrátturinn á Suðurlandi sé það mikill að það jaðri við að kallast hrun þar sem um sé að ræða 21,3% minni umferð. Ekki sé hægt að sjá í fljótu bragði hvað valdi þessum mikla samdrætti á Suðurlandi því ekki sé að sjá að um leiðréttingu vegna mikillar aukningar árin á undan sé skýring. Hugsanlega hafi eldgosið í Eyjafjallajökli haft áhrif.