Hópur fólks var við Stjórnarráðið þegar ríkisstjórnarfundur hófst þar í morgun. Vill fólkið með þessu lýsa andstöðu við tilmæli um að vextir gengislána miðist við vexti Seðlabankans en ekki samningsvexti.
Þá hefur verið boðað til mótmæla við Seðlabankann klukkan 12 í dag. Þar voru mótmælaaðgerðir um hádegisbil í gær. Talið er að hátt í 500 manns hafi tekið þátt í mótmælunum þá og var blásið í vúvúsela, búsáhöldum klingt og reynt að þvinga upp hurð Seðlabankans.
Einn var handtekinn eftir að hafa neitað að hlýða
fyrirmælum lögreglu, sem greip inn í þegar fólkið var byrjað að bera
eldsmat að aðalinngangi bankans og farið að skvetta á hann vökva.
„Þetta leit út eins og bálköstur,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson,
aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þá taldi lögregla
sér ekki lengur til setunnar boðið. Að sögn mótmælenda var lögregla
harðhent.